Skip to main content

Hreinsunardagar í KMA

Eitt af vorverkum okkar er að þrífa Kirkjumiðstöðina á Eiðum utan sem innan.  Í ár dugðu ekki minna en tveir dagar og samtals um 60 vinnustundir í verkið.

CAT kassar afhentir

catEitt af verkefnum okkar er að styðja grunn- og leikskóla með ýmsum hætti. 

Fyrir nokkrum árum gáfum við Egilsstaðaskóla og Grunnskóla Seyðisfjarðar svokallaða CAT kassa, en þeir eru verkfæri sem auðvelda samskipti við börn.

Nýverið pöntuðum við 3 nýja kassa og afhentum þá í Brúarásskóla, Fellaskóla og Leikskólann Tjarnarskóg á Egilsstöðum. 

Tvær af systrum okkar starfa í Brúarásskóla og tóku við kassanum þangað á síðasta fundi.

Á myndinni má sjá Kristínu Högnadóttur, Guðnýju Ríkharðsdóttur, Þorbjörgu Gunnarsdóttur og Þorbjörgu Garðarsdóttur með einn "kassann".

Öskupokar á Minjasafninu

pokardotiðpokapúkiKlúbburinn hefur undanfarin ár, í samstarfi við Minjasafn Austurlands, staðið fyrir öskupokasmiðju. Í ár var hún haldin á bolludaginn 20. febrúar og mættu þangað 20 börn og 6 fullorðnir.

Þú og þinn styrkur v/2022

NámskeiðNámskeiðið "Þú og þinn styrkur" var haldið 28. janúar 2023 í Hlymsdölum.  Þátttakendur voru rúmlega 20 stúlkur fæddar árið 2010 úr 4 grunnskólum í Múlaþingi. Leiðbeinendur voru sem fyrr Jónína Kristjánsdóttir, María Kristmundsdóttir og Eygló Daníelsdóttir. 

 

Efni námskeiðsins og uppsetning var með sama sniði og 2021 og má lesa nánari lýsingu á innihaldi og framkvæmd í grein Eyglóar Daníelsdóttur frá námskeiðinu 2021

 

kellur

 Hádegisverður og miðdegishressing voru í boði okkar systra og fengum við sendar ljúffengar veitingar frá Bókakaffi.

Hvatningarverðlaun í des 2022

Hvatning des 22Ragnheiður Þorsteinsdóttir hlaut hvatningarverðlaun Soroptimistaklúbbs Austurlands við útskrift úr ME í desember 2022.

Verðlaunin eru veitt fyrir góðan árangur sem náðst hefur þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Þekktu rauðu ljósin !

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi 2022

spjald framspjald bakÞekktu rauðu ljósin - Soroptimistar hafna ofbeldi er slagorð íslenskra Soroptimista í 16 daga átakinu að þessu sinni. Átakið sem leitt er af Sameinuðu þjóðunum og er alþjóðlegt hefst 25. nóvember og því lýkur 10. desember.
Um allan heim sameinast hin ýmsu samtök í því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi með ýmsum hætti en roðagylltur litur er einkenni átaksins, #roðagyllumheiminn, #orangetheworld, en hann á að tákna bjartari framtíð.
Markmið 16 daga átaksins að þessu sinni er að beina athyglinni að forvörnum og fræðslu og hafa Soroptimistar útbúið fræðsluefni um hinar ýmsu myndir ofbeldis sem flokka má í sex flokka:
andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og eltihrellir. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því að um ofbeldi sé að ræða í samböndum fólks en það getur átt sér stað óháð kyni, aldri og kynhneigð.

Samkvæmt rannsóknum hafa 15% til 20% íslenskra kvenna og 5% til 10% íslenskra karla verið beitt ofbeldi af maka sínum eða þeim sem þau voru í ástarsambandi við og líklega búa um 2% íslenskra kvenna við ofbeldi hverju sinni.

Íslenskir Soroptimistar, sem eru nú um 600 í 19 klúbbum, hvetja alla til að kynna sér málefnið, fræðast og leggja sitt af mörkum til að stöðva ofbeldi.
Soroptimistasystur munu þessa 16 daga vekja athygli meðal annars með því að klæðast roðagylltum fatnaði, selja ýmsan varning, birta greinar og fræðsluefni. Roðagyllti liturinn verður áberandi á byggingum víða um land og einnig á sendiráðum Íslands víða um heim.

Soroptimistaklúbbur Austurlands efnir af þessu tilefni til Ljósagöngu 25. nóvember. Hún hefst kl.17:00 við Egilsstaðakirkju og gengið verður að Valaskjálf, þar sem boðið verður upp á léttar veitingar og flutt verða stutt erindi. Viðbragðsaðilar, félagsþjónustan og þolandi ofbeldis verða meðal þeirra sem þarna stíga á stokk.

Allir eru velkomnir í gönguna og í Valaskjálf.

"Þekktu rauðu ljósin - Soroptimistar hafna ofbeldi”