Skip to main content

Gengið gegn kynbundnu ofbeldi

Systur í Soroptimistaklúbbi Austurlands stóðu fyrir ljósagöngu gegn kynbundnu ofbeldi í byrjun desember á síðasta ári. Upphaflega var ætlunin að gangan færi fram laugardaginn 25. nóvember á alþjóðalegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi, um leið og UN Women stóð fyrir ljósagöngu í Reykjavík og annars staðar, en vegna aftakaveðurs á Austurlandi var ákveðið að fresta göngunni um viku og fór hún fram laugardaginn 2. desember.

Föstudaginn 1. desember afhentu systur, klæddar í appelsínugult, mandarínur í anddyri Bónus og Nettó á Egilsstöðum og hvöttu samborgara sína til að sýna náungakærleik og koma í veg fyrir að einelti og ofbeldi fái þrifist.  Einnig afhentu þær upplýsingabréf um átakið.

Á laugardeginum var svo gengið frá Egilsstaðakirkju að Gistihúsinu (Lake Hotel Egilsstaðir) þar sem Gisthúsið og Fellabakarí buðu þátttakendum upp á hressingu, heitt súkkulaði, kaffi og te og girnilega baráttuköku og áttu þátttakendur notalega stund í hlýlegu umhverfi Gistihússins. 

Það var fámennt en ákaflega góðmennt í göngunni og góður rómur gerður að framtaki Soroptimistasystra. Veðrið var yndislegt og himinninn appelsínugulur eins og til að hnykkja á mikilvægi átaksins en litur þess er einmitt appelsínugulur.

Systur í Austurlandsklúbbi Soroptimista eru ákveðnar í að endurtaka viðburðinn á þessu ári því eins og Metoo byltingin hefur sýnt okkur að undanförnu má aldrei slá slöku við í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Það var samdóma álit þeirra systra sem deildu út mandarínum og tóku þátt í göngunni að náðst hefði að vekja athygli á baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.

Systur þakka Bónus, Nettó, Fellabakarí og Gistihúsinu - Lake Hotel Egilsstaðir fyrir að stuðninginn.