Skip to main content

Um klúbbinn

Soroptimistaklúbbur Árbæjar var stofnaður 18. október 1980 og var þar með 8. soroptimistaklúbbur landsins ásamt Bakka- og Seljaklúbbnum sem stofnaður var sama dag. Stofnfélagar voru 18 konur og eru 8 stofnfélagar enn starfandi í klúbbnum sem í dag telur alls 41 systur.

Árbæjarklúbburinn fundar annan mánudag í hverjum mánuði í safnaðarheimili Árbæjarkirkju.

Heiðursfélagar klúbbsins eru Kristín Sjöfn Helgadóttir, Guðrún Kristinsdóttir og Dóra Petersen.

Aðal fjáröflun klúbbsins hefur síðustu ár verið blómasala tvisvar á ári, fyrir páskana og í tengslum við átakið Roðagyllum heiminn í nóvember. Blómasalan hefur gengið vel og upphæðir stærstu styrkja klúbbsins hvert ár eru ákveðnar í samhengi við hversu vel blómasalan gengur. 

Aðrir fastir liðir í klúbbnum okkar er að aðstoða kirkjuna í fermingarmessum. Þá sjáum við systur um að taka á móti fermingarbörnum þegar þau koma í kirkjuna, klæða þau í kirtlana og ganga svo frá kirtlunum eftir messu.

Einnig sjáum við um kaffi í kirkjunni eftir messu á uppstigningardag sem er dagur aldraðra.

Við höfum haft það sem fastan lið á haustönn að fara í vinnustaðaferð og hefur þá einhver úr klúbbnum boðið systrum á sinn vinnustað.

Síðan er vorferðin okkar alltaf vinsæl og gott að enda starfsárið með góðri ferð út úr bænum.

Við eigum lítinn lund í Árbænum sem við tókum við sem mel en systur plöntuðu trjám sem nú eru orðin stór. Síðasti fundur hvers starfsárs er í lundinum okkar þar sem tekið er til hendinni og lundurinn snyrtur.

Árbæjarklúbbur hefur haldið þrjá landsambandsfundi: 1983, 1995 og 2008.

Stofnfélagar sem enn eru starfandi í klúbbnum eru Dóra Petersen, Erla Frederiksen, Guðfinna Jóhannsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Katrín Ágústsdóttir, Kristín Sjöfn Helgadóttir og Sigurlaug Kristjánsdóttir. 

Núverandi formaður er Valborg Huld Elísdóttir.