Skip to main content

Heimboð til Lukku

Ein systir okkar í Soroptimistaklúbbi Austurlands, Lukka S. Gissurardóttir á Seyðisfirði, hefur lengi haft þá hugmynd að gaman væri að við systur mundum hittast og eiga góða stund saman utan hefðbundins félagsstarfs á borð við fundi og viðburði. Covid og fleira hefur hamlað því að af gæti orðið. En laugardaginn 13. janúar sl. ákvað Lukka að gera alvöru úr þessu og bjóða systrum heim til sín á Seyðisfjörð þar sem hún býr í stóru og fallegu húsi. Ellefu systur mættu til hennar upp úr klukkan fjögur og tóku með sér ýmislegt gott að borða, svo sem osta, kex, og margt fleira. En Lukka bauð einnig sjálf upp á afar ljúffenga kjötsúpu. Með þessu var drukkið rauðvín og hvítvín sem greitt var af gleðipyngjunni okkar góðu. Systur sátu síðan og spjölluðu saman um alls kyns mál, en eftir að kjötsúpan hafði verið borðuð dró Lukka fram spil sem heitir Húsið. Spilið byggir á spurningum sem sumar eru býsna persónulegar og má svara þeim með setningu sem gefin er neðst í spilinu, ef viðkomandi vill ekki fara út í slíka sálma. En allar systur svöruðu spurningunum út frá eigin brjósti og ræddu þannig fjölmörg mál, sum í alvarlegri kantinum. Lukka talaði seinna um að þetta hefði verið til marks um mikla vináttu og má taka undir þau orð. Alvaran vék svo aftur fyrir skemmtun þegar dregin voru upp brandaraspil sem konur skemmtu sér konunglega yfir. Þorkell maður Lukku stóð vaktina í eldhúsinu og má geta þess að yngsti meðlimur klúbbsins, Anastasiia Hulchenko frá Úkraínu sem aðeins er búin að vera á Íslandi í tæplega tvö ár ákvað að vera honum til aðstoðar. Og er skemmst frá því að segja að þau töluðu saman, á íslenskri tungu, í heilan klukkutíma. Við vorum hreyknar af þessari yngstu systur okkar fyrir þetta afrek. Konur héldu síðan heim eftir dásamlegt kvöld, en fimm fengu gistingu hjá Lukku og fóru ekki fyrr en daginn eftir. Það var einróma álit að þennan viðburð þyrfti að endurtaka síðar.

Öskupokasmiðja og forseti SÍ í heimsókn

Við systur í Soroptimistaklúbbi Austurlands höfum í þónokkur ár verið í samstarfi við Minjasafn Austurlands og boðið upp á öskupokasmiðju rétt fyrir öskudaginn. Þá hjálpum við börnum við að sauma og skreyta öskupoka til að viðhalda þessari gömlu og skemmtilegu hefð.  Við leggjum til allskonar efni og skraut, bönd í snúrur, steina eða málshætti til að setja í pokana og að sjálfsögðu góða títuprjóna sem má beygja saman svo hægt sé að stinga í föt hjá einhverjum góðum.

Miðvikudagurinn 7. febr. var annasamur hjá Soroptimistaklúbbi Austurlands. Þá mættu 3 systur í Safnahúsið þar sem boðið var upp á öskupokasmiðju hjá Minjasafninu og bolluvandagerð á Bókasafninu. Það var líf og fjör í tuskunum og er talið að vel yfir 30 börn, auk nokkurra foreldra, hafi mætt og gert sér einn öskupoka eða fleiri.  Kristjana okkar Björnsdóttir sat við saumavélina og saumaði poka og Lukka og Þorbjörg Gunnars aðstoðuðu börnin við að sauma skraut í pokana og snúa bönd til að þræða í.

Það voru enn að koma börn þegar við urðum að hætta því framundan var klúbbfundur í Hlymsdölum þar sem Sigrún Þorgeirsdóttir forseti SÍ mætti og hélt góða tölu um sögu Soroptimista á Íslandi, gildi okkar og markmið. Að sjálfsögðu fékk Sigrún öskupoka með slaufu í litum okkar Soroptimista til minja um þessa góðu heimsókn til okkar.

Aðalfundur janúar 2024

Aðalfundur Soroptimistaklúbbs Austurlands var haldinn í Hlymsdölum 10. janúar sl. Hefðbundin aðalfundarstörf voru, flutt skýrsla stjórnar og verkefnastjóra og gjaldkeri lagði fram reikninga félagsins sem samþykktir voru samhljóða. Ný stjórn tók til starfa og einnig fulltrúar og verkefnastjórar. Þökkum við fráfarandi stjórn kærlega fyrir styrka stjórn sl. ár.

Ný systir tekin inn á desemberfundi

Á desemberfundi okkar var tekin inn ný systir.  Hún heitir Anastasiia Hulchenko og er frá Úkraínu. Hún kom til Egilsstaða þegar stríðið í Úkraínu hófst og hefur verið hér síðan.  Hún stundar nám í lyfjafræði og starfar í Lyfju á Egilsstöðum auk þess að læra íslensku.  Hún er yngsti Soroptimisti á Íslandi, fædd árið 2000.

Með henni á myndinni eru Yvette Lau, meðmælandi og Kristjana Björnsdóttir formaður.

Nýr vinaklúbbur

Eftir um tveggja ára ferli höfum við eignast nýjan vinaklúbb á Írlandi, SI Drogheda. Haustið 2021 settum við okkur það markmið að eignast nýjan vinaklúbb fyrir sumarið, það gekk ekki alveg eftir en er nú í höfn og annar vinaklúbbur í sjónmáli.

Continue reading

Tvær nýjar systur á aprílfundi

Á aprílfundinum okkar bættust tvær nýjar systur í hópinn, þær Hildur Þórisdóttir sem býr á Seyðisfirði og Einfríður Árnadóttir sem býr á Borgarfirði eystra.

Velkomnar í hópinn !