Skip to main content

Roðagyllum heiminn /Orange the World 2023

Myndir af undirbúningi og ljósagöngu.

Laugardaginn 25. nóvember hófst hið árlega átak gegn kynbundnu ofbeldi sem nefnist Roðagyllum heiminn /Orange the World.  Á heimasíðu Múlathings má lesa nánar um þetta átak.

Undirbúningur stóð yfir í nokkurn tíma og voru 5 systur sem unnu megnið af þeirri vinnu.  Útbúnir voru fánar, plaköt, dreifibréf og miðar sem síðan voru festir á innkaupakerrur í verslunum a svæðinu.

Skilti, kyndlar, kerti, sjálflýsandi armbönd og ýmis konar fatnaður og fylgihlutir var síðan notað í göngunni til að vekja enn frekari athygli.

Síðustu tvo dagana fyrir gönguna stóðu svo systur í verslunum á Egilsstöðum og Seyðisfirði og afhentu mandarínur og dreifibréf með upplýsingum um átakið.  Alls voru afhent 650 eintök.

Í ár fór ljósagangan fram á Seyðisfirði.  Gengið var frá Bláu kirkjunni umhverfis lónið og endað í Herðubreið, þar sem flutt voru erindi og boðið upp á veitingar.  Þátttakendur voru um 50 talsins og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Margaret  Anne Johnson, starfsmaður Aflsins, samtaka gegn ofbeldi, flutti fyrirlestur um starfsemina og ýmsar hliðar þeirra starfs.

Védís Klara Þórðardóttir, hjúkrunarfræðingur í geðheilsuteymi HSA, flutti fyrirlestur um þeirra þjónustu.

Í lokin las síðan Hildur Þórisdóttir ljóð sem þolandi kynbundins ofbeldis samdi. Hildur flutti einnig ávarp við upphaf göngunnar.

Sérstakar þakkir fá Héraðsprent, Nettó, Bónus, Herðubreið og allir aðrir sem liðsinntu okkur á einn eða annan hátt.

Ýmsar stofnanir, fyrirtæki og ekki síst kirkjurnar eru svo lýst með appelsínugulum ljósum alla 16 dagana.

Átakinu lýkur svo 10. desember á degi Soroptimista og alþjóðadegi mannréttinda. 

 

Hreinsunardagar í KMA

Eitt af vorverkum okkar er að þrífa Kirkjumiðstöðina á Eiðum utan sem innan.  Í ár dugðu ekki minna en tveir dagar og samtals um 60 vinnustundir í verkið.

Styrkleikar Krabbameinsfélagsins

Við systur tókum þátt í Styrkleikum Krabbameinsfélagsins á Egilsstöðum í lok ágúst.  Þar gengum við í heilan sólarhring ásamt öðrum liðum og lögðum þessu góða málefni lið.

CAT kassar afhentir

Eitt af verkefnum okkar er að styðja grunn- og leikskóla með ýmsum hætti. 

Fyrir nokkrum árum gáfum við Egilsstaðaskóla og Grunnskóla Seyðisfjarðar svokallaða CAT kassa, en þeir eru verkfæri sem auðvelda samskipti við börn.

Nýverið pöntuðum við 3 nýja kassa og afhentum þá í Brúarásskóla, Fellaskóla og Leikskólann Tjarnarskóg á Egilsstöðum. 

Tvær af systrum okkar starfa í Brúarásskóla og tóku við kassanum þangað á síðasta fundi.

Á myndinni má sjá Kristínu Högnadóttur, Guðnýju Ríkharðsdóttur, Þorbjörgu Gunnarsdóttur og Þorbjörgu Garðarsdóttur með einn "kassann".

Þú og þinn styrkur v/2022

kellurNámskeiðið "Þú og þinn styrkur" var haldið 28. janúar 2023 í Hlymsdölum.  Þátttakendur voru rúmlega 20 stúlkur fæddar árið 2010 úr 4 grunnskólum í Múlaþingi. Leiðbeinendur voru sem fyrr Jónína Kristjánsdóttir, María Kristmundsdóttir og Eygló Daníelsdóttir.  

Efni námskeiðsins og uppsetning var með sama sniði og 2021 og má lesa nánari lýsingu á innihaldi og framkvæmd í grein Eyglóar Daníelsdóttur frá námskeiðinu 2021

 Hádegisverður og miðdegishressing voru í boði okkar systra og fengum við sendar ljúffengar veitingar frá Bókakaffi.