Skip to main content
 • Vorferð 2019

 • Vorferð 2019

 • Stofnfélagar

  Enn fjölgar í Keflavíkurklúbbi

  Eitt af síðustu verkefnum fráfarandi formanns var að taka inn tvær nýjar systur á aðalfundi klúbbsins þann 12. október 2021, þegar systur klæddust bleiku í tilefni af bleikum október. Þetta eru systurnar Eyrún Ösp Ingólfsdóttir og Sara Dögg Eiríksdóttir. Það var sannarlega ánægjulegt að geta eflt klúbbinn og styrkt með öflugum konum. Systur í klúbbnum urðu með inntöku Eyrúnar Aspar og Söru Daggar samtals 46. 

  Inntaka systra 10.21a

  Svanhildur fráfarandi formaður ásamt Sóleyju Gunnarsdóttur og Selmu Björk Hauksdóttur, sem mæltu með systrum og hinar nýju systur Eyrún Ösp og Sara Dögg.

  Inntaka systra 10.21b

  Svanhildur festir nælu í Söru Dögg.

   

  Inntaka systra 10.21c

  Samkvæmt hefð fengu systur kerti við inntökuna.

  Þrjár nýjar systur teknar inn í klúbbinn

  Inntaka nýrra systra

  Þrjár nýjar systur voru teknar inn í klúbbinn á septemberfundinum sem haldinn var á Réttinum 14. september sl. Það er ánægjulegt að fá fleiri kraftmiklar konur í klúbbinn og bjóðum við þær hjartanlega velkomnar. 

  Nýju systurnar heita Kristín Ósk Wium Hjartardóttir, Sigrún Björgvinsdóttir og Díana Hilmarsdóttir sem hér eru taldar frá vinstri ásamt Svanhildi Eiríksdóttur formanni Keflavíkurklúbbs.

  Framtíðar soroptimistar?

  Gróðursetning á afmælisdegi klúbbsins

   Soroptimistaklúbbur Keflavíkur gróðursetti á stofndegi klúbbsins 5. júní sl. alls 100 tré í Njarðvíkurskógum í tilefni af 100 ára afmæli Soroptimista. Klúbburinn er fyrstur félagasamtaka til þess  að fá úthlutað reit í skóginum til gróðursetningar, að sögn Berglindar Ásgeirsdóttur skrúðgarðyrkjumeistara hjá Reykjanesbæ en uppbygging skógarins hefur verið í höndum Reykjanesbæjar og Skógræktarfélags Suðurnesja, sem eru samstarfsaðilar Soroptimistaklúbbs Keflavíkur við gróðursetninguna. Auk uppgræðslu gróðurs hafa útvistar- og leiksvæði verið gerð í skóginum ásamt gróðurkössum þar sem íbúum gefst kostur á að rækta eigin matjurtir. Fleiri félagasamtök hafa líst áhuga á að gróðursetja í Njarðvíkurskógum.

  Eitt af verkefnasviðum Soroptimista eru umhverfismál og líkt og hjá systrum í Kaliforníu , sem nú fagna 100 ára afmæli, hefur gróðurrækt verið áberandi í starfsemi klúbbanna. .Systur í Keflavíkurklúbbi hafa lengi gróðursett í lundi við Voga en nú var kveðið að færa sig um set í Njarðvíkurskóga og taka þátt í uppbyggingu þar. Með gróðursetningunni vilja Keflavíkursystur ekki aðeins minnast tímamótanna í starfsemi Soroptimista heldur taka þátt í uppbyggingu skóglendis og grænna svæða í nærsamfélaginu  sem er ekki síður mikilvæg fyrir kolefnisbindingu í nálægð við alþjóðaflugvöll.

  Gróðursetn3 1210x1613

  Aðalfundur 2020

  Soroptimistaklúbbur Keflavíkur hélt aðalfund sinn 27. október eftir að hafa frestað honum um tvær vikur í von um að hægt yrði að halda hann með hefðbundnu sniði. Í millitíðinni hafði verið hert á sóttvörnum og samkomutakmörkunum svo úr varð að halda veffund. Eftir skoðanakönnun var ljóst að systur vildu að notast yrði við Teams fundaforritið.

  Þar sem þetta var fyrsti veffundur klúbbsins og þar að auki aðalfundur var mikið í húfi að hann tækist vel. Það varð raunin. Allar áhyggjur ruku út í veður og vind um leið og fundur hófst. Góð mæting var á fundinn og hægt var að afgreiða þau mál sem lágu fyrir fundi. Systur voru duglegar að nota uppréttu höndina í forritunu til þess að biðja um orðið og passa að slökkva á hljóði þess á milli.

  Nokkrar systur komu saman í smærri hópum og buðu til sín þeim sem ekki treystu sér í kerfið. Formaður hafði biðlað til systra um að gera slíkt. 

  Keflavíkursystur styrkja Frú Ragnheiði á Suðurnesjum

  Frú Ragnheiður4 minni1

  Soroptimistaklúbbur Keflavíkur færði á dögunum Frú Ragnheiði á Suðurnesjum, skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins styrk að upphæð kr. 200.000. Vonir standa til að hægt verði að hefja starfsemina innan skamms en það verður gert um leið og Almannavarnir gefa grænt ljós.
  Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir verkefnastjóri Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum hélt erindi á maífundi Soroptimistaklúbbs Keflavíkur og fræddi systur um verkefnið. Í máli Jóhönnu Bjarkar kom fram að vitað hafi verið um þörfina á Suðurnesjum um nokkurt skeið og að unnið hafi verið að undirbúningi í rúm tvö ár. Jóhanna Björk, sem áður var sjálfboðaliði í Frú Ragnheiði í Reykjavík og Díana Hilmarsdóttir forstöðumaður Bjargarinnar - Geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja, unnu þarfagreiningu sem samþykkt var af Rauða krossinum. Samkvæmt greiningu er áætlað að hátt í 36 manns þurfi á þjónustunni að halda á Suðurnesjum. Bíllinn mun fara um öll Suðurnes eftir þörfum og verður þjónustan í boði á mánudögum og fimmtudögum kl. 18:30 – 21:00.
  Markmið skaðminnkunarverkefnisins er að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu, s.s. húsnæðislausra einstaklinga og einstaklinga sem nota vímuefni í æð og bjóða þeim skaðaminnkandi þjónustu. Í erindi Jóhönnu Bjarkar kom fram að þjónustan geti verið margskonar, ekki bara nálaskiptaþjónusta sem oftast er rætt um. „Við bjóðum þjónustuþegum okkar einnig upp á mat, drykk og vítamín, ullarfatnað, svefnpoka og tjalddýnur, ásamt sálrænum stuðningi og samtali, skaðaminnkandi leiðbeiningum og fræðslu, allt eftir ósk hvers og eins og þörfum. Við mætum skjólstæðingum okkar alltaf þar sem þeir eru og reynum að tengjast þeim. Við tölum alltaf fallega til þjónustuþega okkar sem oft þurfa að hlusta á mjög niðrandi orð um sig. Mér þykir ótrúlega vænt um þessa einstaklinga.“
  Hjúkrunarfræðingur er alltaf á vakt í bíl Frú Ragnheiðar, ásamt sjálfboðaliðum. Þá er læknir á bakvakt. Skaðaminnkunarverkefni (harm reduction) gengur út á að fyrirbyggja skaða og áhættu við notkun fíkniefna í æð en ekki að fyrirbyggja sjálfa notkunina. Sem slíkt er það hluti af mannúðlegri nálgun við vímuefnanotkun og -vanda þar sem viðurkennt er að hluti af samfélaginu notar lögleg og/eða ólögleg vímuefni. Í þeim hópi eru einstaklingar sem ekki geta né vilja hætta notkun vímuefna. Rannsóknir hafa sýnt að skaðaminnkandi inngrip draga úr neikvæðum og hættulegum afleiðingum vímuefnanotkunar.
  Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Soroptimistasystur beita sér m.a. fyrir að veita þjónustu í heimabyggð og vinna að mannréttindum öllum til handa. Verkefni Rauða krossins rímar því vel við markmið Soroptimista og eru systur í Keflavíkurklúbbi stoltar af því að geta lagt þessu þarfa verkefni lið. Það var Svanhildur Eiríksdóttir formaður klúbbsins sem færði Jóhönnu Björk styrkinn.

   Frú Ragnheiður1 minni2

  Frú Ragnheiður2 minni1

   

  Keflavíkursystur roðagylla heiminn

  Roðagyllum2 minniSystur í Soroptimistaklúbbi Keflavíkur lögðu mikinn metnað í að taka þátt í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi með roðagyllingu heimsins. Til þess að gera viðburðinn sýnilegri og fá fyrirtæki og íbúa í lið með okkur, höfðum við samband við Suðurnesjamiðilinn Víkurfréttir. Úr varð að gerður var þáttur um átakið og sýndur á Hringbraut fimmtudaginn 14. nóvember. Áfram lifir hann í Suðurnesjamagasíni á vefnum vf.is. Grein upp úr þættinum var fyrir útgefið fréttablað Víkurfrétta viku síðar, fimmtudaginn 21. nóvember. Systur buðu sjóvarpsmönnum á fund með appelsínugulu þema, svo myndefnið gæti orðið roðagullið. Það tókst vel eins og sést á meðfylgjandi hópmynd sem Víkurfréttamenn tóku.

  Áður en viðtal var tekið höfðu systur sent bréf til fyrirtækja og stofnana í bænum. Margir gáfu okkur jákvæð svör og hafa hafið þátttöku í verkefninu. Einhverjum þarf að ýta við  sumsstaðar er appelsínuguli liturinn full daufur. En við erum þakklátar þeim sem tóku jákvætt í beiðni okkar og trúum því að verkefnið muni eflast strax á næsta ári. Systur eru þegar farnar að íhuga hvað hægt væri að gera.