• Fyrsta mynd

 • Önnur mynd

 • Þriðja mynd

  Marsfundur

  Systur hittust á fundi í raunheimum í byrjun mars og var það kærkomin tilbreyting frá fjarfundum. Við fengum að hlusta á fróðlegt erindi um sögu alþjóðlegs baráttudags kvenna sem systir okkar Guðbjörg Linda Rafnsdóttir tók saman. Guðlaug Þ. Kristjánsdóttir tók að sér flytja erindið á fundinum. Erindi Guðbjargar Lindu birtist síðan í aprílhefti Fregna. 

  Fyrirlesari kvöldsins var Hjördís Þorgeirsdóttir, félagsfræðikennari við Menntaskólann við Sund og fjallaði hún um starfendarannsóknir kennara við skólann. Hún fór m.a. yfir aðferðafræði starfendarannsókna, umgjörð þeirra og áhrif í skólum. Þessar rannsóknir eru afskaplega góð leið fyrir starfsþróun og eru mikið notaðar í kennslu. Starfendarannsóknir efla þverfaglegt samstarf innan skólans og stuðla að breytingum. Þær veita kennaranum styrk, færa kennarann nær nemandanum og koma í veg fyrir kulnun. Ný þekking verður til hjá kennurum og innan skólans.

  Febrúarfundur

  Vilborg Oddsdóttir aðstoðarverkefnastjóri kynnti nýtt styrktarverkefni Reykjavíkurklúbbs hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, Stattu með sjálfri þér – virkni til farsældar, fyrir konur á örorku með börn á framfæri.

  Áætlað hafði verið að heimsækja Vinnumálastofnun en vinnustaðafundurinn var fjarfundur í ár. Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar hélt áhugavert erindi um starfsemi stofnunarinnar og þau gríðarmiklu og krefjandi verkefni sem starfsmenn hennar hafa sinnt á tímum heimsfaraldurs.

  Janúarfundur

  Þórdís Kristjánsdóttir, doktorsnemi í lífverkfræði við Háskóla Íslands, hélt fróðlegt erindi um nýtingu baktería til framleiðslu verðmætra efna úr ódýrum hráefnum, með aðstoð tölva. Það var fróðlegt að fá innsýn í þetta áhugaverða efni. Þórdís fékk styrk frá Evrópusambandi Soroptimista til að vinna að doktorsverkefninu sínu og sækja alþjóðlegar ráðstefnur sem því tengdust

  Jólafundur

  Á jólafundi, sem var fjarfundur að þessu sinni, var afhentur styrkur til Kvennaathvarfsins sem Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra tók á móti. Hún hefur starfað lengi hjá Kvennaathvarfinu og gaf okkur góða innsýn í það góða starf sem þar er unnið og hvernig styrkurinn yrði nýttur. Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur sagði okkur frá rithöfundaferlinum og las úr nýjustu bókinni sinni en hún kýs að kalla bækurnar sínar fjölskyldusögur.