Skip to main content
  • Fyrsta mynd

  • Önnur mynd

  • Þriðja mynd

    Septemberfundur

    Systur voru ánægðar að hittast á Nauthóli eftir sumarleyfi. Þórdís Sigurðardóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Úganda, hélt fræðandi erindi um þróunarsamvinnu Íslands, markmið hennar og áherslur og það umhverfi sem starfað er í. Í lokin var vikið að þeim nýja veruleika sem blasir við í þróunar- og mannúðarstarfi í skugga heimsfaraldurs og hvernig tekist er á við hann.

    Herdís Sveinsdóttir, deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar og systir í Reykjavíkurklúbbi, hélt erindi á maífundinum (2020)

    Systur í Reykjavíkurklúbbi voru ánægðar að hittast á fundi eftir langt hlé. Fyrirlesari var Herdís Sveinsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og deildarforseti Hjúkrunarfræðideildar. Hún fjallaði m.a. um ábyrgð og faglega forystu deildarforseta og kennslu í hjúkrunarfræði á öllum stigum sem hefur verið í örri þróun undanfarin ár. Þá sagði Herdís okkur frá nýjum áskorunum á vormisseri vegna kórónuveirunnar, t.d. þurfti að endurskipuleggja allt verknámið vegna mikillar smithættu á sjúkrastofnunum.

    Maífundur SR Herdís Sveinsdóttir fyrirlestur

    Umsækjandi frá Íslandi fékk styrk frá Soroptimistasystrum í Hollandi

    Það er ánægjulegt að segja frá því að umsækjandi frá Íslandi, Renata Emilsson Peskova, fékk styrk frá Vrouwenstudiefonds Soroptimisten í Hollandi. Renata stundar doktorsnám við Deild menntunar og margbreytileika á Menntavísindasviði HÍ og hefur einnig sótt um styrk frá Evrópusambandi Soroptimista. Stoð og stytta Renötu í umsóknarferlinu er Sigrún Klara Hannesdóttir, fyrrverandi formaður í Reykjavíkurklúbbi. Einnig hefur Anh-Dao Katrín Tran, systir í Reykjavíkurklúbbi, hjálpað Renötu með ráðum og dáð.

    Frétt frá 15. mars 2020: Aðalbjörg Guðmundsdóttir systir í Reykjavíkurklúbbi 100 ára

    Aðalbjörg Guðmundsdóttir 100 ára 15.mars 2020

    Aldursforsetinn okkar, Aðalbjörg Guðmundsdóttir, fagnar hundrað ára afmæli í dag. 

    Aðalbjörg starfaði sem grunnskólakennari og hún var stofnformaður í Soroptimistaklúbbi Keflavíkur 1975. Hún flutti sig yfir í Reykjavíkurklúbbinn 1979 og hefur hún gegnt mörgum embættum í gegnum tíðina. Aðalbjörg var varaforseti Landssambands Soroptimista, hún hefur starfað sem ritari, gjaldkeri og fulltrúi hjá Reykjavíkurklúbbnum og hún hefur starfað í ýmsum nefndum, m.a. í fjáröflunarnefnd, sjóðanefnd og móttökunefnd. 

    Dóttir Aðalbjargar, Margrét Rögnvaldsdóttir, systir í Reykjavíkurklúbbi, skipulagði fyrir tveimur árum glæsilega systraferð um Melrakkasléttu og Langanes. Þá fengu systur úr Reykjavíkurklúbbi höfðinglegar móttökur hjá Aðalbjörgu á ættaróðalinu á Harðbak á Melrakkasléttu. Aðalbjörg var gerð að heiðursfélaga í klúbbnum árið 2006.

    Við óskum Aðalbjörgu innilega til hamingju á þessum merku tímamótum