Skip to main content
  • Heimsókn í Bessastaði

  • Önnur mynd

  • Þriðja mynd

    Magnea Rósa Tómasdóttir

    Magnea Rósa Tómasdóttir lyfjafræðingur fæddist í Vestmannaeyjum 20. september 1928. Hún lést á Minni-Grund í Reykjavík þann 5. febrúar 2023. Kveðju fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness rituðu Margrét Jónsdóttir og Steinunn Anna Einarsdóttir.

    Rósa kvæntist Gunnari Hafsteini Bjarnasyni, vélaverkfræðingi, 6. september 1958. Rósa varð stúdent frá MR árið 1948 frá máladeild sem dúx og árið 1949 frá stærðfræðideild. Hún útskrifaðist sem Exam. pharm. frá Lyfjafræðingaskóla Íslands árið 1951 og sem Cand. pharm. frá Danmarks pharmaceutiske højskole 1954. 

    Rósa var aðstoðarlyfjafræðingur í Apóteki Vestmannaeyja 1951-1952 og lyfjafræðingur í sama apóteki 1954-1955. Hún starfaði sem lyfjafræðingur í Laugavegsapóteki 1955-1960, Ingólfs Apóteki 1962-1963, sem staðgengill lyfsala í apóteki Vestmannaeyja sumrin 1960-1963 og sem lyfjafræðingur í Vesturbæjar Apóteki 1963-1983. Rósa var lyfsali í Nesapóteki á Seltjarnarnesi 1983-1999. Rósa sat í stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands frá 1970-1975 og sem formaður 1971-1972.

    Rósa með systrum úr Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness við afhendingu styrkjar til Barna- og unglingageðdeildar Landspítala, Bugl

    Bugl

    Kveðja frá Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness

    Það er skammt stórra högga á milli. Magnea Rósa Tómasdóttir, stofnfélagi í Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness, lést hinn 5. febrúar síðastliðinn á 95. aldursári. Þegar fregnin um lát hennar barst vorum við nýbúnar að kveðja annan stofnfélaga.

    Rósa var máttarstólpi í klúbbnum okkar og við gátum alltaf treyst því að hún legði eitthvað gott til málanna. Hún var litrík og skarpgáfuð kona og á fundum okkar kom hún gjarnan með snarpar athugasemdir litaðar af leiftrandi kímni.

    Rósa var líka máttarstólpi í sínu sveitarfélagi. Hún stofnaði apótek á Seltjarnarnesi, það fyrsta í 150 ár, en vagga lyfjafræði á Íslandi var í Nesi við Seltjörn. Um árabil var hún apótekari á Eiðistorgi. Oft gátum við soroptimistasystur hitt hana þar og þegið góð ráð.

    Rósa var virk í klúbbnum svo lengi sem heilsan leyfði. Eftirminnileg er ferð klúbbsins til Ítalíu sumarið 2007 og hve ánægjulegt það var að hún og Gunnar maður hennar skyldu geta tekið þátt í henni, en þá var Gunnar orðinn heilsutæpur. Það tókst vel með dyggri aðstoð Áslaugar dóttur þeirra sem ferðaðist með þeim. Þetta voru dagar vináttu og gleði sem gott er að minnast að leiðarlokum.

    Síðustu árin bjó Rósa á Skólabraut 3, þar sem eru íbúðir aldraðra á Seltjarnarnesi. Þar tók hún þátt í félagsstarfi, stundaði meðal annars bókband um hríð. Alls staðar var nærvera hennar upplífgandi og skemmtileg.

    Við kveðjum Rósu með söknuði, blessuð sé minning hennar.

     

     

    Þórunn K. Erlendsdóttir

    Þórunn Erlendsdóttir fæddist í Reykjavík 31. júlí 1935. Hún lést á Landspítalanum 28. janúar 2023. Steinunn Anna Einarsdóttir ritaði kveðju fyrir hönd Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness.

    Þórunn ólst upp í foreldrahúsum við Lindargötu og fluttist svo með fjölskyldu sinni í Ásgarð í Reykjavík. Hún útskrifaðist með verslunarpróf úr Verzlunarskólanum og fór síðan að starfa við skrifstofustörf. Lengst af vann hún hjá Jöklum hf. sem skrifstofustjóri. Síðar starfaði hún sem stuðningsfulltrúi hjá Mýrarhúsaskóla til starfsloka. Í júlí 1967 giftist hún Guðmundi Kristinssyni. Þau byggðu sér hús á Látraströnd, Seltjarnarnesi, og bjuggu þar og síðar á Eiðistorgi til 2021 að þau fluttu rétt yfir landamærin til Reykjavíkur.

    Nokkrar myndir af Þórunni með systrum í Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness

    DSCF7373 DxO

     

    DSCF7331 DxO

     

    bessastaðir

     

    20190114 193134 DxO

    Kveðja frá Soroptimistaklúbbi Seltjarnarness

    Þórunn Erlendsdóttir andaðist hinn 28. janúar sl. Með henni er genginn einn af stofnfélögum Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness frá því í september 1977. Þórunn var alltaf öflugur þátttakandi í verkefnum klúbbsins og vann sín störf af dugnaði og gleði. Soroptimistar eiga að markmiði að veita þjónustu hvort sem er í heimabyggð eða á alþjóðavettvangi. Fyrstu árin voru fjáröflunarverkefni klúbbsins nokkuð fyrirhafnarsöm. Í dymbilviku gengum við í hús og seldum páskaliljur. Þar var Þórunn fremst í flokki.

    Þórunn var talnaglögg og varð fljótlega gjaldkeri klúbbsins, og síðar var hún kjörin í vandasamara embætti sem gjaldkeri Landssambands Soroptimista. Því embætti gegndi hún eins lengi og félagslög leyfðu. Þórunn var auðug að bjartsýni og því systraþeli sem er aðalsmerki Soroptimista um allan heim, kær vinkona í mörg ár og hennar verður sárt saknað.

    Þegar ég kynntist Þórunni fyrst bjó hún ásamt Guðmundi manni sínum og sonum þeirra í einbýlishúsi við Látraströnd á Seltjarnarnesi. Fyrstu árin hélt klúbburinn fundi í heimahúsum, og ég man hvað allt rúmaðist vel heima hjá Þórunni. Þar var glatt á hjalla og gestrisni mikil. Síðar, þegar synirnir voru fluttir að heiman, fengu þau sér minni íbúð en gestrisnin var alltaf söm og jöfn.

    Þórunn hafði lítið gaman af því að vera á eftirlaunum með hendur í skauti. Hún fékk sér vinnu í Skólaskjóli Mýrarhúsaskóla. Þar lék hún knattspyrnu við börnin og hélt sér bráðungri. Hún hafði líka verið mikil handknattleikskona á sínum sokkabandsárum, hvað eftir annað Íslandsmeistari með sínu félagi, Ármanni.

    Minnisstætt er það þegar Þórunn hélt upp á sjötugsafmæli sitt í sumarbústaðnum sem þau hjónin höfðu þá nýlega eignast. Klúbbsystrum var öllum boðið þangað ásamt eiginmönnum sínum, og þar var veitt af mikilli rausn. Sumarbústaðurinn varð henni hjartfólginn og þar fannst henni augljóslega gott að vera.

    Síðastliðin ár átti hún við erfiðan sjúkdóm að stríða en hún lét það lítið á sig fá. Hún var oft á mannamótum, glöð í bragði, og klúbbfundi sótti hún vel. Nú verður þar brestur á. Þau Guðmundur voru kirkjurækin og ég hitti þau reglulega við guðsþjónustur og annað starf í Seltjarnarneskirkju. Nú verður hún kvödd þar í dag. Ég sendi fjölskyldu Þórunnar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

    Ingibjörg Bergsveinsdóttir

    Bessastaðir6 copy

    Ingibjörg Bergsveinsdóttir við hlið forseta Íslands í heimsókn klúbbsins að Bessastöðum 13. október 2017

    GDE16C30T1

    Ingibjörg Bergsveinsdóttir fæddist 4. ágúst 1933 og andaðist 21. febrúar 2021. Sólveig Pálsdóttir ritaði minningarorðin.

    Í dag kveðjum við Ingibjörgu Bergsveinsdóttur stofn- og heiðursfélaga Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness. Konu sem lét að sér kveða hvar sem hún kom. Hún bjó að fjölþættri reynslu eftir að hafa meðal annars rekið fyrirtæki, ritstýrt blaði, starfað að sveitastjórnarmálum og alið upp börn. Ingibjörg var einstaklega lífleg og skemmtileg kona, bráðgáfuð og félagslynd. Hún var alltaf til í allt og kunni að gera lífið skemmtilegt. Ég minnist þess þegar við nokkrar tróðum upp með heimatilbúið skemmtiatriði á sameiginlegum klúbbafundi. Þetta var frumsaminn dans og Ingibjörg sem þá var komin um áttrætt dansaði af hjartans lyst og húmor, klædd svörtum pífukjól með fjaðraskraut á höfði. Hún var nefnilega búin þeim kostum sem oftar en ekki einkenna sterka persónuleika að hafa ríka sjálfsvirðingu án þess að taka sjálfa sig of hátíðlega.
    Ingibjörg var hugmyndarík og alltaf að velta fyrir sér nýjum tækifærum í lífi og starfi. Klúbburinn okkar naut svo sannarlega góðs af hæfileikum hennar. Soroptimistar eru alþjóðleg samtök sem vinna að bættu samfélagi, jafnrétti, framförum og friði. Til góðra verka þarf að afla fjár og þá reynir á frumleika og kraft. Á fyrstu árum klúbbsins hafði Ingibjörg frumkvæði að verkefnum sem voru til góða bæjarfélaginu okkar, eins og kaup á húsgögnum í sameiginleg rými í húsi aldraða við Skólabraut og kaup á kirkjuklukku.
    En stærsta fjármögnunarverkefni Ingibjargar er ljóðabókin fallega Tilfinningar sem kom út árið 2002. Ingibjörg valdi úrval ljóða eftir móður sína Guðrúnu Jóhannsdóttur og bjó til prentunar. Formálann skrifaði Sigurbjörn Einarsson biskup. Í aðfaraorðum bókarinnar segir Ingibjörg að hún sé „hugsuð sem handbók fyrir þá sem vilja koma tilfinningum sínum á framfæri jafnt á gleði og sorgarstundum“. Tilfinningar hefur verið vinsæl og er til á mörgum heimilum en allur ágóði sölunnar rennur til verkefnis í þágu einhverfra.
    Hin síðustu ár hefur árlegt golfmót verið aðalfjáröflun Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness. Hugmyndin var alfarið Ingibjargar en þegar þarna var komið var hún farin að finna fyrir sjúkdóminum sem lék hana svo illa hin síðustu ár og kom því framkvæmdinni í öruggar hendur annarrar systur.
    Síðustu árin voru Ingibjörgu erfið og það var þungbært að sjá þessa kláru konu hverfa inn í Alzheimerheiminn. Við Soroptimistasystur vottum Magnúsi, börnum, tengdabörnum og barnabörnum þeirra, okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Ingibjargar.

    Þóra C. Óskarsdóttir

    Þóra

    Þóra C. Óskarsdóttir fæddist í Reykjavík 24. apríl 1940 og lést á Landspítala Fossvogi þann 26. janúar 2019. Þóra gekk í Soroptimistaklúbb Seltjarnarness árið 1983. Hún gegndi þar ýmsum embættum, s.s. gjaldkeri klúbbsins tvö kjörtímabil og ritari Landssambandsins 1988-1990. 

    Þóra lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og BA-prófi í bókasafns- og sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hún starfaði sem bókavörður á Landsbókasafni Íslands, skólasafnvörður í Valhúsaskóla, aðstoðarbókafulltrúi í menntamálaráðuneytinu, bókafulltrúi ríkisins  og sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu. Í lok starfsævinnar starfaði Þóra á Landsbókasafni Íslands við ýmis sérverkefni. 

     

       Þóra1