Skip to main content
  • Heimsókn í Bessastaði

  • Önnur mynd

  • Þriðja mynd

    Ingibjörg Bergsveinsdóttir

    Bessastaðir6 copy

    Ingibjörg Bergsveinsdóttir við hlið forseta Íslands í heimsókn klúbbsins að Bessastöðum 13. október 2017

    GDE16C30T1

    Ingibjörg Bergsveinsdóttir fæddist 4. ágúst 1933 og andaðist 21. febrúar 2021. Sólveig Pálsdóttir ritaði minningarorðin.

    Í dag kveðjum við Ingibjörgu Bergsveinsdóttur stofn- og heiðursfélaga Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness. Konu sem lét að sér kveða hvar sem hún kom. Hún bjó að fjölþættri reynslu eftir að hafa meðal annars rekið fyrirtæki, ritstýrt blaði, starfað að sveitastjórnarmálum og alið upp börn. Ingibjörg var einstaklega lífleg og skemmtileg kona, bráðgáfuð og félagslynd. Hún var alltaf til í allt og kunni að gera lífið skemmtilegt. Ég minnist þess þegar við nokkrar tróðum upp með heimatilbúið skemmtiatriði á sameiginlegum klúbbafundi. Þetta var frumsaminn dans og Ingibjörg sem þá var komin um áttrætt dansaði af hjartans lyst og húmor, klædd svörtum pífukjól með fjaðraskraut á höfði. Hún var nefnilega búin þeim kostum sem oftar en ekki einkenna sterka persónuleika að hafa ríka sjálfsvirðingu án þess að taka sjálfa sig of hátíðlega.
    Ingibjörg var hugmyndarík og alltaf að velta fyrir sér nýjum tækifærum í lífi og starfi. Klúbburinn okkar naut svo sannarlega góðs af hæfileikum hennar. Soroptimistar eru alþjóðleg samtök sem vinna að bættu samfélagi, jafnrétti, framförum og friði. Til góðra verka þarf að afla fjár og þá reynir á frumleika og kraft. Á fyrstu árum klúbbsins hafði Ingibjörg frumkvæði að verkefnum sem voru til góða bæjarfélaginu okkar, eins og kaup á húsgögnum í sameiginleg rými í húsi aldraða við Skólabraut og kaup á kirkjuklukku.
    En stærsta fjármögnunarverkefni Ingibjargar er ljóðabókin fallega Tilfinningar sem kom út árið 2002. Ingibjörg valdi úrval ljóða eftir móður sína Guðrúnu Jóhannsdóttur og bjó til prentunar. Formálann skrifaði Sigurbjörn Einarsson biskup. Í aðfaraorðum bókarinnar segir Ingibjörg að hún sé „hugsuð sem handbók fyrir þá sem vilja koma tilfinningum sínum á framfæri jafnt á gleði og sorgarstundum“. Tilfinningar hefur verið vinsæl og er til á mörgum heimilum en allur ágóði sölunnar rennur til verkefnis í þágu einhverfra.
    Hin síðustu ár hefur árlegt golfmót verið aðalfjáröflun Soroptimistaklúbbs Seltjarnarness. Hugmyndin var alfarið Ingibjargar en þegar þarna var komið var hún farin að finna fyrir sjúkdóminum sem lék hana svo illa hin síðustu ár og kom því framkvæmdinni í öruggar hendur annarrar systur.
    Síðustu árin voru Ingibjörgu erfið og það var þungbært að sjá þessa kláru konu hverfa inn í Alzheimerheiminn. Við Soroptimistasystur vottum Magnúsi, börnum, tengdabörnum og barnabörnum þeirra, okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Ingibjargar.