Skip to main content
  • Skagafjörður

  • Lýtingsstaðir

  • Sauðárkrókur

    Umhverfisverkefni Skagafjarðar

    10474891 10202678733791617 8785901550983244700 n

    Frá árinu 2004 hefur Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar  haft umsjón með útnefningu umhverfisviðurkenninga sveitarfélagsins og er þetta verkefni helsta fjáröflun klúbbsins. Fyrirkomulagið hefur verið með svipuðu sniði öll þessi ár. Klúbbsystur raða  sér í 6 hópa, sem skipta með sér svæðinu frá Fljótum, inn allan Skagafjörð, fram að Hofsvöllum og út að Hrauni á Skaga.

    Farið er um þéttbýli og sveitir tvisvar sinnum yfir sumarið og að lokum skila hóparnir tillögum um þá staði sem valið stendur um, hverju sinni. Í upphafi var ákveðið að viðurkenningaflokkarnir yrðu átta og er það svo enn. Flokkarnir eru eftirfarandi:

             Sveitabýli með búskap

             Sveitabýli án búskapar

             Lóð í þéttbýli

             Lóð við fyrirtæki

             Lóð við opinbera stofnun

             Snyrtileg gata

             Einstakt framtak

    Sem dæmi um atriði sem horft er  til og gefin er einkunn fyrir er frágangur bygginga, geymsla tækja og áhalda, viðhald girðinga, almenn umgengni og heildarmynd húsa, lóða og sveitabýla. 

    Mjög oft fylgjumst við með framvindu hjá einstaklingum og fyrirtækjum í nokkur ár áður en ákveðið er að veita viðkomandi viðurkenningu. Af því að klúbburinn hefur unnið að þessu ánægjulega og þarfa verkefni í mörg ár, þá erum við nokkuð vel að okkur um, hvernig hlutunum er fyrirkomið á mörgum bæjum og á lóðum í þéttbýli og því nokkuð fljótar að átta okkur  ef breyting verður á og verðum alltaf jafn glaðar þegar við sjáum að breytingarnar eru til batnaðar.

    Sem betur fer erum við stöðugt að bæta umgengni okkar hérna í sveitarfélaginu og gera umhverfi okkar snyrtilegra og fallegra en lengi má gott bæta og þetta er svo sannarlega stöðug vinna. Það höfum við séð.  Við þurfum að vera tilbúin að sinna okkar nánasta umhverfi, ekki bara okkar eigin blettum, hvort sem það felst í því að týna rusl eða uppræta illgresi, vegna þess að öllum líður betur í snyrtilegu umhverfi. Ef allir leggjast á eitt í þessum efnum verður útkoman góð. Við Soroptimstasystur viljum því hvetja alla íbúa í Skagafirði að leggja sitt af mörkum í því að  fegra héraðið okkar.