Skip to main content
 • Skagafjörður

 • Lýtingsstaðir

 • Sauðárkrókur

  Umhverfisviðurkenningar Skagafjarðar 2019

   

  umhverfisverðlaun_2019.jpg

  Vinningshafar umhverfisviðurkenninga 2019: Fv. Helga Sjöfn Helgadóttir, Gunnlaugur Hrafn Jónsson, Margrét Grétarsdóttir, Páll Sighvatsson, Elínborg Bessadóttir, Vésteinn Vésteinsson, Ingibjörg Sigfúsdóttir sem tók við skildinum fyrir hönd Ásdísar Sigurjónsdóttur, Herdís Sæmundardóttir, Guðmundur Ragnarsson, Ásta P. Ragnarsdóttir, Magnús Sverrissona, Laufey Guðmundsdóttir og Jóhann Bjarnason.

  Þann 12. september voru umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Skagafjarðar veittar í Húsi frítímans á Sauðárkróki. Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar hefur haft umsjón með útnefningu viðurkenningarinnar fyrir sveitarfélagið í 15 ár og eru því orðnar ansi kunnugar heimahögunum, en þær fara um allan fjörð og taka út umgengni svæða. Er það einkar ánægjulegt að sjá hve hvetjandi verkefnið er og sjá mun á milli ára til batnaðar.

  Samtals hafa verið veittar 94 viðurkenningar á þessum 15 árum en í ár voru veittar sjö viðurkenningar í sex flokkum.

  Erla Björk, formaður klúbbsins, afhenti viðurkenningarnar sem að þessu sinni voru eftirfarandi:

  Býli með búskap, Hátún 1. Eigendur Helga Sjöfn Helgadóttir og Gunnlaugur Hrafn Jónsson.

  Býli án búskapar, Syðra-Skörðugil. Eigendur Ásdís Sigurjónsdóttir og Einar E. Gíslason, sem lést fyrir skömmu.

  Ekki var hægt að gera upp á milli tveggja garða að þessu sinni og voru því veittar tvær viðurkenningar í flokknum lóð í þéttbýli. Annars vegar var það Brekkutún 4 Sauðárkróki, í eigu Margrétar Grétasdóttur og Páls Sighvatssonar og hins vegar Drekahlíð 8 Sauðárkróki, sem er í eigu Ástu Pálínu Ragnarsdóttur og Magnúsar Sverrissonar.

  Snyrtilegasta umhverfi við fyrirtæki hlaut Bændagistingin á Hofsstöðum, sem er í eigu Elínborgar Bessadóttur og Vésteins Vésteinssonar.

  Fallegasta lóðin við opinbera stofnun hlaut Hóladómkirkja og tóku formaður sóknarnefndar, Laufey Guðmundsdóttir og organistinn, Jóhann Bjarnason við viðurkenningunni.

  Að lokum hlutu Herdís Sæmundardóttir og Guðmundur Ragnarsson viðurkenningu fyrir einstakt framtak, en þau stóðu að því að reisa minnisvarða um Hrafna-Flóka í minni Flókadals í Fljótum sem var vígt árið 2012.

  Óskar klúbburinn vinningshöfum til hamingju og þökkum þeim fyrir að láta umhverfið skipta sig máli.