• Vinkonukvöld

  Vinkonukvöld 2019

  Vinkonukvöld Soroptimistaklúbbs Suðurlands var haldið 20. september sl. að Þingborg í Flóahreppi. Vinkonukvöldið hefur fest sig í sessi sem aðal fjáröflunarverkefni klúbbsins þar sem bróðurpartur ágóðans rennur jafnan til jólagjafaverkefnis klúbbsins sem unnið er í samstarfi við félagsþjónustur sveitarfélaga á Suðurlandi og ætlað að styrkja efnaminni konur og börn þeirra.  

  Fastir liðir voru eins og venjulega fordrykkur, léttar veitingar, gnægtarlegt happdrætti og sýning á hausttískunni sem að þessu sinni var frá versluninni Lindinni á Selfossi. Sýndu klúbbsystur faglega takta í sýningarstörfum auk þess sem þær kynntu skinnavörur og eigin handverk. 

  Heiðursgestir kvöldsins voru hjónin Albert Eiríksson og Bergþór Pálsson og fataðist þeim ekki flugið frekar en fyrri daginn þegar þeir gáfu innsýn í líf sitt og tilveruna.  Systurnar Unnur Birna og Dagný Halla Björnsdætur skemmtu með hljóðfæraleik og söng eins og þeim einum var lagið, enda dætur Bassa frá Glóru sem Sunnlendingum er að góðu kunnur á tónlistarsviðinu.

  Veislustjórar kvöldsins voru þær Fanney Björg og Margrét Ýrr  sem leystu verkefni sitt vel af hendi m.a. með hjálp hinnar færeysku Turillu sem sendi þeim skilaboð á myndbandi um að koma sér í fjörið á íslensku elliheimili. 

  Á þessu vinkonukvöldi var sú nýlunda að eiginmenn og synir  klúbbsystra þjónuðu til borðs og tóku að sér öll eldhússtörf meðan á skemmtuninni stóð og hafði húsvörðurinn orð á því að hún ætti því ekki að venjast að nánast væri búið að ganga frá öllu í eldhúsinu þegar skemmtuninni lyki eins og reyndin var hjá piltunum. 

  Vinkonukvöldið þótti heppnast vel og eru systur þakklátar öllum þeim er lögðu hönd á plóginn með sjálfboðavinnu og framlögum af ýmsu tagi.