Skip to main content
  • Blómin frá Espiflöt

  • Við opnun Sigurhæða

  • Haustkransagerð

  • Gróðursetning í júní

  • Undirritun samnings við Árborg

    Opnun Sigurhæða

    Opnunarhátíð SIGURHÆÐA, sem var laugardaginn 20. mars sl. að viðstödum um 80 gestum, var hreint út sagt mögnuð, yndisleg og gleðirík. Ekki spillti gullfalleg umgjörðin utan um hátíðina, Listasafn Árnesinga í Hveragerði, en Kristín Scheving safnstýra lagði SIGURHÆÐUM til húsakynnin endurgjaldslaust verkefninu til styrktar. Fjölmargar kveðjur og gjafir bárust og tilkynnt var um tvo nýja styrki til SIGURHÆÐA. Var annar frá Sambandi sunnlenskra kvenna og hinn frá Soroptimistaklúbbi Kópavogs. Ávörp fluttu Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðis, Guðrún Lára Magnúsdóttir forseti Soroptimistasambands Íslands, Svava Davíðsdóttir félagsmálastjóri Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu og Margrét Harpa Garðarsdóttir staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi. Allar töluðu um þá þörf sem er til staðar á Suðurlandi fyrir úrræði sem SIGURHÆÐIR, sem þær hafa reynslu af úr sínum störfum. Starfsemi SIGURHÆÐA hefur farið vel af stað, það er byrjað að bóka viðtöl, allt komið í gang. GÖNGUM SAMAN UPP SIGURHÆÐIR! Tvær ljósmyndir efst á síðu: Erling Ó. Aðalsteinsson.

    • Created on .

    Vinkonukvöld 2019

    Vinkonukvöld Soroptimistaklúbbs Suðurlands var haldið 20. september sl. að Þingborg í Flóahreppi. Vinkonukvöldið hefur fest sig í sessi sem aðal fjáröflunarverkefni klúbbsins þar sem bróðurpartur ágóðans rennur jafnan til jólagjafaverkefnis klúbbsins sem unnið er í samstarfi við félagsþjónustur sveitarfélaga á Suðurlandi og ætlað að styrkja efnaminni konur og börn þeirra.  

    Fastir liðir voru eins og venjulega fordrykkur, léttar veitingar, gnægtarlegt happdrætti og sýning á hausttískunni sem að þessu sinni var frá versluninni Lindinni á Selfossi. Sýndu klúbbsystur faglega takta í sýningarstörfum auk þess sem þær kynntu skinnavörur og eigin handverk. 

    Heiðursgestir kvöldsins voru hjónin Albert Eiríksson og Bergþór Pálsson og fataðist þeim ekki flugið frekar en fyrri daginn þegar þeir gáfu innsýn í líf sitt og tilveruna.  Systurnar Unnur Birna og Dagný Halla Björnsdætur skemmtu með hljóðfæraleik og söng eins og þeim einum var lagið, enda dætur Bassa frá Glóru sem Sunnlendingum er að góðu kunnur á tónlistarsviðinu.

    Veislustjórar kvöldsins voru þær Fanney Björg og Margrét Ýrr  sem leystu verkefni sitt vel af hendi m.a. með hjálp hinnar færeysku Turillu sem sendi þeim skilaboð á myndbandi um að koma sér í fjörið á íslensku elliheimili. 

    Á þessu vinkonukvöldi var sú nýlunda að eiginmenn og synir  klúbbsystra þjónuðu til borðs og tóku að sér öll eldhússtörf meðan á skemmtuninni stóð og hafði húsvörðurinn orð á því að hún ætti því ekki að venjast að nánast væri búið að ganga frá öllu í eldhúsinu þegar skemmtuninni lyki eins og reyndin var hjá piltunum. 

    Vinkonukvöldið þótti heppnast vel og eru systur þakklátar öllum þeim er lögðu hönd á plóginn með sjálfboðavinnu og framlögum af ýmsu tagi.

    • Created on .

    Fréttaskot frá klúbbfundum 2018-2019

    Fréttaskot frá klúbbfundum 2018-2019

    Októberfundurinn á Hótel Örk í Hveragerði:

    Hlýtt var á fyrirlestur Trausta Steinssonar um kynni hans af transbörnum. Hann fléttaði mál sitt við frásagnir úr bók sem hann hafði nýlokið við að þýða og er hugsuð sem nokkurs konar handbók fyrir foreldra transbarna. 

     

    Nóvemberfundurinn í Eldhúsinu, Selfossi:

    Gestur fundarins var Rannveig Brynja Sverrisdóttir aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi. Hún ræddi um fíkniefnavanda sem steðjar að þjóðinni, en honum hefur hún kynnst m.a. þegar hún var starfandi í fíkniefnalögreglunni í Reykjavík.   

    Desemberfundur, jólafundurinn,  að Stekkum í fyrrum Sandvíkurhreppi:

    Systur lögðu á sameiginlegt jólahlaðborð, hlýddu á EGO erindi og léku sér. Friður aðventunnar sveif yfir vötnunum þetta kvöld.

     

    Janúarfundurinn að 360° Boutique Hotel & Lodge í Flóahreppi:

    Hlýtt á Aðalheiði Jóhönnu Ólafsdóttur lesa ljóð eftir Goethe bæði á íslensku og þýsku. Hún er Waldorfkennari og kennir m.a. hreyfitækni er hún nefnir hrynlist. Hún kenndi systrum nytsamar æfingar til að losa spennu og áhyggjur og taka til sín kærleika.  

     

    Febrúarfundurinn í Eldhúsinu, Selfossi:

    Gestur fundarins var Jónína Lóa Kristjánsdóttir með erindi sitt sem hún nefndi  ,,Hamingja og hugarró”. Jónína er hjúkrunarfræðingur að mennt með sérnám í heilsugæsluhjúkrun. Hún hefur einnig lært fjölskyldufræði og kynnst jóga.

     

    Marsfundurinn að Miðási í Ásahreppi:

    Margrét Ýrr,  hjúkrunarfræðingur og  systir í Soroptimistaklúbbi Suðurlands,  var með fræðslu um grundvallaratriði endurlífgunar. Hún sýndi systrum skyggnur og fræddi þær um notkun hjartastuðtækja. Hún sýndi einnig handtök til að hjálpa fólki sem stendur í og að lokum leyfði hún systrum að hnoða og blása í dúkku.

     

    Aprílfundurinn í Eldhúsinu, Selfossi:

    Þórný Björk systir í Soroptimistaklúbbi Suðurlands fjallaði um dáleiðslu en hún er nýlega útskrifuð sem dáleiðslutæknir og hyggur á áframhaldandi nám í þeim fræðum. Hún endaði erindi sitt á því að bjóða systrum upp á slökun sem þær þáðu.

     

    Maífundurinn í Betri stofunni, Hótel Selfossi:

    Ingridar Kuhlman flutti fyrirlestur um hamingjuna. Ingrid er með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði frá Bretlandi þar sem lokaverkefni hennar var ,,eigindleg rannsókn á skynjun og skilningi eldri borgara á vellíðan“ Verkefni hennar birtist systrum sem kvikmynd um hamingjuna.  



    Júnífundurinn að Jörfa í Hrunamannahreppi:

    Fundurinn fléttaðist inn í vorferð klúbbsins sem lesa má um í væntanlegu jólablaði Fregna 2019 

     

    Septemberfundurinn á Kaffi Sel, Golfskálanum Flúðum. Hann var jafnframt 100. fundur Soroptimistaklúbbs Suðurlands:

    Tvær nýjar systur voru boðnar velkomnar í klúbbinn á þessum fundi, þær Charlotta Ingadóttir og Guðrún Ólöf Jónsdóttir. 






    • Created on .

    Roðagyllum heiminn

    Mynd frá Brynhildur Geirsdóttir.

    • Created on .

    More Articles …