Skip to main content

Gróðursetning á Seyðisfirði

gr sey hopurÍ vor fórum við að huga að gróðursetningu á Seyðisfirði sem átti að fara fram í fyrra (sbr. frétt).  Urðum við mjög glaðar þegar í ljós kom að hægt var að gróðursetja plönturnar í skriðusárið í hlíðinni fyrir ofan planið þar sem Silfurhöllin stóð áður.

Þriðjudaginn 28. júní fórum við svo í verkið. Begga kom með plönturnar sem hún hafði fóstrað síðan í fyrra, gróðursetningarverkfæri og áburð. Vaskur hópur systra og aðstoðarmanna var mættur til starfa og er skemmst frá því að segja að eftir réttan klukkutíma var búið að gróðursetja allar plönturnar og koma stóru plöntunni, sem pottuð var í fyrra, á heiðursstað í hlíðinni.

Skammt frá þar sem við vorum að planta, stendur grenitré, sem stóð af sér skriðuna og fékk nafnið Von eftir það. Var um það rætt í hópnum hvaða nafn plantan okkar ætti að fá. Ósk eða Trú voru efst á blaði, en ekki var ákveðið um það endanlega.

Að lokinni gróðursetningu var komið við á Skaftfelli og snæddur kvöldverður.