Skip to main content
Jóhanna að vinna á bókamarkaði

Gjöf til Heimahlynningar SAK í minningu sr. Jóhönnu I. Sigmarsdóttur

Systur í Soroptimistaklúbbi Austurlands nýttu tækifærið nú um helgina þar sem margar voru staddar á Akureyri á landssambandsfundi SIÍ og afhentu formlega gjöf til Heimahlynningar SAK sem gefin var í minningu sr. Jóhönnu I. Sigmarsdóttur. Sr. Jóhanna var stofnformaður Soroptimistaklúbbs Austurlands og fyrsti heiðursfélagi klúbbsins. Hún var ætíð vakin og sofin yfir klúbbnum, sinnti ýmsum störfum í nefndum og embættum og var mjög virk í verkefnum. Hún lést eftir stutt en erfið veikindi 26. sept. 2022 og naut góðrar aðhlynningar síðustu vikurnar hjá Heimahlynningu í húsi þeirra í Götu Sólarinnar á Akureyri. Okkur systrum fannst því vel við hæfi að minnast sr. Jóhönnu með þessum hætti. Við þetta tækifæri afhentum við teppi gert úr bútum sem systur í klúbbnum hekluðu og settu saman. Áður hafði klúbburinn afhent fjárupphæð sem safnaðist eftir erfidrykkju sr. Jóhönnu. Þess má geta að á morgun Sumardaginn fyrsta, þann 25. apríl hefði sr. Jóhanna orðið 80 ára og stendur fjölskylda hennar fyrir samveru- og helgistund í Kirkjuselinu í Fellabæ þar sem sr. Jóhönnu verður minnst og Egilsstaðaprestakalli verður færð að gjöf guðfræðibókasafn sr Jóhönnu og föður hennar sr Sigmars Inga Torfasonar en þau voru bæði þjónar kirkjunnar á Austurlandi, Sigmar í 44 ár sem sóknarprestur og prófastur á Skeggjastöðum og Jóhanna sem sóknarprestur og prófastur á Eiðum og síðar á Egilsstöðum í 14 ár. Við í Soroptimistaklúbbi Austurlands minnumst sr.Jóhönnu með virðingu og þökk og söknum hennar sárt.