Skip to main content

Tölum íslensku.

CaptureVerkefnið var í gangi veturinn 2015-2016 og var mæting þá frekar dræm. Við erum í þessu með RKÍ og þær eru leiðandi aðili.  Á síðasta fundi vinnuhópsins var ákveðið að gera hlé á verkefninu, reyna að finna því aðra umgjörð, s.s. að færa okkur yfir í húsnæði Rauða krossins og reyna að nýta samlegðaráhrifin þar.  Einnig að vera með skilgreind umræðuefni, s.s. matargerð, skólamál, samgöngur o.s.frv.  Við höfum ekki lokað þessu verkefni en bíðum frumkvæðis RKÍ um framhaldið.

Hjartasíriti

Soroptimistaklúbbur Austurlands hefur fært fæðingadeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands hjartasírita (monitor) að gjöf að verðmæti um 2.100.000 kr. Tilefnið er 10 ára afmæli klúbbsins.

Á myndinni að ofan eru: Lukka Sigríður Gissurardóttir SA, Oddný Ösp Gísladóttir ljósmóðir FSN, Jónína Salný Guðmundsdóttir ljósmóðir FSA og María Ósk Kristmundsdóttir SA.
Mynd: Lóa Björk Bragadóttir

Gengið gegn kynbundnu ofbeldi

Systur í Soroptimistaklúbbi Austurlands stóðu fyrir ljósagöngu gegn kynbundnu ofbeldi í byrjun desember á síðasta ári. Upphaflega var ætlunin að gangan færi fram laugardaginn 25. nóvember á alþjóðalegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi, um leið og UN Women stóð fyrir ljósagöngu í Reykjavík og annars staðar, en vegna aftakaveðurs á Austurlandi var ákveðið að fresta göngunni um viku og fór hún fram laugardaginn 2. desember.

Föstudaginn 1. desember afhentu systur, klæddar í appelsínugult, mandarínur í anddyri Bónus og Nettó á Egilsstöðum og hvöttu samborgara sína til að sýna náungakærleik og koma í veg fyrir að einelti og ofbeldi fái þrifist.  Einnig afhentu þær upplýsingabréf um átakið.

Á laugardeginum var svo gengið frá Egilsstaðakirkju að Gistihúsinu (Lake Hotel Egilsstaðir) þar sem Gisthúsið og Fellabakarí buðu þátttakendum upp á hressingu, heitt súkkulaði, kaffi og te og girnilega baráttuköku og áttu þátttakendur notalega stund í hlýlegu umhverfi Gistihússins. 

Það var fámennt en ákaflega góðmennt í göngunni og góður rómur gerður að framtaki Soroptimistasystra. Veðrið var yndislegt og himinninn appelsínugulur eins og til að hnykkja á mikilvægi átaksins en litur þess er einmitt appelsínugulur.

Systur í Austurlandsklúbbi Soroptimista eru ákveðnar í að endurtaka viðburðinn á þessu ári því eins og Metoo byltingin hefur sýnt okkur að undanförnu má aldrei slá slöku við í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Það var samdóma álit þeirra systra sem deildu út mandarínum og tóku þátt í göngunni að náðst hefði að vekja athygli á baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.

Systur þakka Bónus, Nettó, Fellabakarí og Gistihúsinu - Lake Hotel Egilsstaðir fyrir að stuðninginn.

Prjónaganga

GangaAllir, bæði konur og karlar, eru velkomnir í prjónagöngu með okkur.

Við viljum með þessu heiðra formæður okkar sem gengu prjónandi milli bæja og jafnvel byggðarlaga og nýttu jafna hverja vökustund til hins ýtrasta. 

Hvetjum ykkur til að koma með !