Skip to main content
  • Sá litli á Breiðinni

  • Stjórn 2018-2019

  • Fjör á fundi

  • Langisandur

    ROÐAGYLLUM HEIMINN- BURTU MEÐ OFBELDI

    Soroptimistar á Akranesi og nágrenni hafa í ár tekið höndum saman með Soroptimistasystrum um land allt við að vekja athygli á mikilvægi þess að vinna markvisst að útrýmingu kynbundins ofbeldis.

    Nú stendur yfir 16 daga ákall Sameinuðu þjóðanna (SÞ), þar sem ríki, stofnanir, samtök, fyrirtæki og einstaklingar eru hvött til að taka þátt í því að draga athygli almennings að þessari vá; þessum alvarlegu mannréttindabrotum.  Þetta er árvisst átak sem hefst 25. nóvember, degi sem Sameinuðu þjóðirnar völdu sem alþjóðlegan dag vitundarvakningar um ofbeldi gegn stúlkum og konum. Því lýkur á mannréttindadegi SÞ 10. desember, sem jafnframt er alþjóðlegur dagur Soroptimista.  

    Fuglafóður og 16days

     Táknlitur átaksins er appelsínugulur, litur vonar. Á ensku er slagorðið Orange the world eða Roðagyllum heiminn. Liturinn var valinn til að minna okkur á að eftir sólsetur rís sólin upp að nýju.  Það má því víða sjá roðagyllt hús, tanka og torg í tilefni þessa mikilvæga málefnis og ljósagöngur farnar í bæjum og borgum.

    Continue reading

    Fréttir af Akranesi sumarið 2019

    Helstu tíðindi af Akranessystrum eru þau að farið var í vorferð um Kjósina, sem eru mínir heimahagar og fékk ég það eðla hlutverk að segja frá því sem fyrir augun bar. Byrjuðum í bjórsmakki á Kalastöðum og enduðum í vöfflukaffi hjá þeim kjarnakonum sem voru að undirbúa Vindáshlíð fyrir komu ungra stúlkna sem margar hverjar eru að stíga þarna mörg hugrekkis og gleðiskref, kynnast öðrum stelpum, sofa að heiman og eflast af ráðum og dáð. Lilja Guðlaugs systir okkar var þarna mörg sumur þannig að hún tók að sér að rifja upp sögu þessa framtaks KFUK, sem unnið var mikið í sjálfboðavinnu.

     Soro vorferd 2019 4             Soro vorferd 2019 3            Soro vorferd 1 2019

    Lokahnykkur þessa starfsárs er svo í höndum verkefnastjóranna okkar, sem eru að vinna í því að við styrkjum tvær stúlkur í Malaví til náms í kennarafræðum. Þetta er gert með dyggri aðstoð Kristjönu verkefnastjóra á Þróunarsviði Utanríkisráðuneytisins í Malaví. Fyrr í vor voru öllum heimilum í Kankhande þorpinu „okkar“ í Mangochi héraði í Malaví færðar orkusparandi og umhverfisvænni hlóðir að gjöf frá okkur, en um 270 heimili var að ræða.

    Hlóðir 4

    Á heimavettvangi fékk stúlka í Fjölbrautarskóla Vesturlands bókaverðlaun fyrir árangur í náttúrufræði og við ákváðum líka að stuðla að lýðheilsu með því að gefa bekk til að setja við göngustíg við Langasand. Þar er líka um boðun að ræða þar sem bekkurinn verður merktur okkur.

    Sigríður Gísladóttir, varaformaður Akranessklúbbs.

    Pönnukökubakstur á Akranesi

    PönnukökumyndHin árlega pönnukökusala okkar fór fram að venju á bóndadaginn sem í ár, 2016, bar upp á 22. janúar. Við settum met þetta árið og seldum 3.486 pönnsur til82 fyrirtækja víðsvegar um bæinn.

    Vegna forfalla dreifðist vinnan á færri systur en venjulega þannig að þær sem tóku þátt bökuðu 150-180 pönnsur hver. Þetta var samt mikið fjör því kvöldið fyrir bóndadaginn lögðum við undir okkur eldhúsin á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða, þar sem 4 bökuðu, og í Grundaskóla þar sem við vorum 10. Þannig að þótt þetta hafi alldeilis verið mikil vinna þá var gamanið enn meira og með góðri verkaskiptingu tók það okkur ekki nema um 5 tíma að rispa af 1800 pönnsum. Síðan var mætt eldsnemma á bóndadagsmorgunn til að setja rjóma og sykur á pönnukökurnar, pakka þeim og keyra út í fyrirtækin sem öll vildu fá þær með morgunkaffinu.

    Þessi fjáröflun gaf okkur 608.145 kr í beinan hagnað þar sem við greiddum að mestu fyrir hráefniskostnaðinn sjálfar.

    Soroptimistaklúbbur Akraness

    Nýliðun

    Mynd 3 nylidafrett 800x600 640x480

    Nýjar systur frá vinstri: Bjarnheiður Hallsdóttir; Adda Maríusdóttir;Jóhanna H. Hallsdóttir; Anna G. Torfadóttir og Jónella Sigurjónsdóttir.

    Eitt af verðugum verkefnum hvers klúbbs er að laða til sín nýja félaga til að efla starfið. Það höfðu ekki verið teknar inn nýjar systur hér í Akranesklúbbinn frá því að ég sjálf kom inn haustið 2014, þannig að nú var að duga eða standa sig. Í klúbbnum eru dugnaðarforkar og þar á meðal nokkrar sem eru ofurkonur þegar kemur að því að vinna að útbreiðslu. Í byrjun þessa árs var kominn myndarlegur listi yfir hugsanlega félaga og á framhaldsaðalfundinum í mars voru nöfn 22 kvenna kynnt fyrir klúbbmeðlimum.

    Ákveðið var að í kjölfar hefðbundins umþóttunarferlis, yrði þeim sem vildu þekkjast það, boðið á sérstakan kynningarfund með stjórn og þeim sem mæltu með þeim inn í klúbbinn. Var þetta gert í stað þess sem oftar er viðhaft; þ.e. að bjóða þeim að koma á hefðbundinn fund. 10 konur þáðu að koma á þessa kynningu eða fengu einkakynningu og af þeim ákváðu 6 konur að ganga í klúbbinn.

    Sjálf inntakan fór fram á fundi 14. nóvember,  sem jafnframt var fyrsti fundur sem undirrituð stjórnaði sem nýkjörinn formaður. Ein af þessum sex komst ekki þann dag og mun verða tekin í okkar raðir á jólafundinum. Er það mat okkar að þessi tilhögun á inntöku nýrra systra hafi lánast sérlega vel og við bjóðum þær innilega velkomnar.

    Sigríður Kr. Gísladóttir formaður Akranesklúbbs

    Vorferð Akranesklúbbsins 2017

    Soroptimistaklúbbur Akraness fór í sína árlegu vorferð 10. júní s.l. og í þetta sinn lá leiðin austur fyrir fjall. Á leiðinni fór formaður yfir helstu frétttir af fjáröflun og undirbúningi landsambandsfundar og sagði sögur af merkum konum og fjölkunnugum karli frá svæðinu. Á kaffihúsinu fallega, Hendur í Höfn, var tekið á móti okkur með kaffi, góðu meðlæti og skemmtilegri frásögn af tilurð kaffihússins og galleríinu sem það tengist.

    Mynd A Hendur i Hofn

    Continue reading