Skip to main content
  • Skagafjörður

  • Lýtingsstaðir

  • Sauðárkrókur

    Þekktu rauðu ljósin - Soroptimistar hafna ofbeldi

    Plakat2 bara

    Dagana 25. nóvember til 10. desember er alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem er leitt af Sameinuðu þjóðunum. Um allan heim sameinast hin ýmsu samtök í því að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi með ýmsum hætti en roðagylltur litur er einkenni átaksins, #roðagyllumheiminn, „orangetheworld en hann á að tákna bjartari framtíð.

    „Þekktu rauðu ljósin – Soroptimistar hafna ofbeldi“ er slagorð íslenskra Soroptimista í þessu 16 daga átaki. Markmið átaksins að þessu sinni er að beina athyglinni að forvörnum og fræðslu. Ekki er alltaf auðvelt að átta sig á því að um ofbeldi er að ræða í samböndum fólks en það getur átt sér stað óháð kyni, aldri og kynhneigð.

    Samkvæmt rannsóknum hafa 15-20% íslenskra kvenna og 5-10% íslenskra karla verið beitt ofbeldi af maka sínum eða þeim sem þau voru í ástarsambani við og líklega búa um 2% íslenskra kvenna við ofbeldi hverju sinni.

    Íslenskir Soroptimistar, sem eru nú um 600 í 19 klúbbum víðsvegar um landið, hvetja alla til að kynna sér málefnið, fræðast og leggja sitt af mörkum til að stöðva ofbeldi.

    Í tengslum við átakið býður Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar öllum þeim sem áhuga hafa á fyrirlestur með Ásdísi Ýr Arnardóttur fjölskyldufræðingi sem ber heitið „Hvað gerist þegar kona fer? Hvernig má styðja við konur sem vilja slíta ofbeldissambandi?“ og fjallar um þær aðstæður og tilfinningar sem gjarnan myndast þegar kona yfirgefur ofbeldissamband.

    Fyrirlesturinn fer fram kl. 21:00 þann 24. nóvember í fyrirlestrarsal FNV og er aðgangur ókeypis. Fyrirlestrinum verður einnig streymt á eftirfarandi slóð: https://play.extis.one/soroptimistar_24/

    Allir eru hjartanlega velkomnir.